Tuesday, April 8, 2014

Compliance (2012)

Þessi kvikmynd byggir á sönnu réttarmáli þar sem maður hringdi á McDonald's veitingastað, sagðist vera lögreglumaður og að einn starfsmaðurinn væri grunaður um þjófnað. Hann fékk yfirmann staðarins til að leita á starfsstúlkunni naktri en vegna anna hringdi yfirmaðurinn í unnusta sinn til að sitja yfir stúlkunni þangað til lögreglan kæmist á staðinn. Maðurinn í símanum, sem unnustinn hélt líka að væri lögreglumaður fékk unnustann til að gera allskonar skrítna og kynferðislega hluti við stúlkuna, meðal annars rassskella hana.

Þetta er alveg ótrúlegt mál en það hafa komið upp ansi mörg svona tilfelli í Bandaríkjunum þar sem yfirleitt var hringt á skyndibitastaði, starfsmaður sakaður um þjófnað og starfsfólk beðið um að gera eitthvað vafasamt við viðkomandi.

Myndin er á köflum erfið áhorfs því maður trúir varla að fólk sé ekki fært um að hugsa rökrétt í svona aðstæðum. En þetta sýnir bara nákvæmlega það sem Stanley Milgram sýndi fram á í margumtöluðum rannsóknum hans þar sem þátttakendur gáfu öðru fólki rafstraum er þeim fannst yfirvald skipa þeim fyrir. Fólk getur nefninlega látið siðferðislega sannfæringu sína eins og vind um eyru þjóta ef það skynjar að yfirvald gefur skipanir. Þessi rannsókn var talin geta meðal annars skýrt hvernig hermenn geta framið skelfileg ódæði í stríði.

Compliance er lítil og vel gerð kvikmynd sem sýnir ansi kröftuglega þessa hlið á mannlegri hegðun.

9 / 10

No comments:

Post a Comment