Saturday, August 24, 2013

Ben Affleck er nýji Batman

Það eru allir að hugsa þetta en engin þorir að segja það. Ofurmennið og Leðurblökumaðurinn verða mögulega elskendur í framhaldinu af Man of Steel. Þetta verður gert til að laða að fleiri kvenkyns áhorfendur en töluvert fleiri karlar en konur lögðu leið sína til að sjá Stálmanninn í bíó. Og ekki er hægt að segja að neistar hafi flogið milli Ofurmennisins og Lois Lane í síðustu mynd og því rétt að kynna til sögunnar nýtt "love interest" stálmannsins. Þetta er auðvitað bara rökrétt þróun en ofurhetjumyndir eru farnar að verða raunsærri og endurspegla þjóðfélagsaðstæður. Svo segir þetta sig líka sjálft. Annar þeirra er í þröngum leðurgalla og með leðurgrímu og hinn í bláu og rauðu spandexi. Og þeir eru að fara að hanga saman til að stöðva glæpi? Yeah right.

 Möguleg nöfn á nýju myndinni:

Man of Steel 2: The Bat who loved me
Man of Steel 2: When Clark met Bruce
Man of Steel 2: From The Batcave with Love
Man of Steel 2: Feel my Steel
Man of Steel 2: My Little Dark Knight Rises

Friday, August 23, 2013

Ratchet

Þetta hressir nú mann og annan.


Actress

Minna mas, meiri músík. Set hér á fóninn hjartabræðandi lag með Jim James af plötunni Regions of Light and Sound of God.

Líf þessa stráks

Þessi mynd er um margt áhugaverð en hún er frá árinu 1993 og er með Robert De Niro og Ellen Barkin ásamt því að kynna til sögunnar á stóra tjaldið tvo unga leikara sem báðir áttu eftir að svífa hátt á stjörnuhimininn með mörgum eftirminnilegum frammistöðum í kvikmyndum. Þetta eru þeir Leonardo Di Caprio og Tobey Maguire (sem má nú sjá aftur saman í myndinni The Great Gatsby). De Niro er sagður hafa valið Di Caprio sjálfur úr hópi 400 unga drengja sem mættu í áheyrnarprufur fyrir myndina. Myndin er sannsöguleg og byggir á minningum rithöfundarins Tobias Wolff en þegar hann var á unglingsárum giftist mamma hans ráðríkum og árásargjörnum manni (leikinn skemmtilega af De Niro) og settust þau að í smábænum Concrete. Myndin fjallar svo um tilraun hins unga Wolff til að sleppa frá þröngsýnis hugsunarhætti og ofbeldi stjúpföður síns sem og fáfróðum smábæjarbúum.

This Boy´s Life er mynd sem vel hægt er að mæla með.

Wednesday, August 21, 2013

Facebook bjargaði lífi mínu

Hér áður fyrr var ég maður götunnar og ráfaði stefnulaust um götur borgarinnar með sjúkrahús spritt í flösku. Ég svaf í ræsinu og hafði náð botni eigin tilvistar. Fólki bauð við mér og vildi ekkert með mig hafa. En þá kom kallið að ofan. Facebook. Facebook rétti mér hjálparhönd þegar allar bjargráðir voru uppurnar. Ég byrjaði að pota í fólk og senda fólki sem ég þekkti ekki neitt klámfengin skilaboð. Ég eignaðist vini. Ég setti inn myndir af mér og fór að skrifa statusa um líf mitt á götunni. Ég hóf samskipti við rússneskar konur sem tóku mér eins og ég er. Ég hætti að drekka. Ég keypti mér ný föt og ég hætti að míga í húsasundum. Núna míg ég í bakgörðum. Núna á ég 576 vini og ég er búinn að pota í þá alla. Einhvern daginn mun ég jafnvel hitta einhvern af þeim. Facebook gaf lífi mínu tilgang. Facebook bjargaði lífi mínu.

Sunday, August 18, 2013

Löng leið til baka

Sam Rockwell er leikari sem er hættulegur sjálfum sér og umhverfi sínu, það skemmtilegur er hann. Hann fer á kostum í The Way Way back sem hægt er að læða sér inn á í einhverjum af bíóhúsum borgarinnar. Fín mynd þar.



  

A better song to sing

Educating Rita er bresk kvikmynd frá 1983 með Michael Caine og Julie Walters. Þrátt fyrir að vera gömul og að frelsisbarátta kvenna sé lengra á veg komin en árið 1983 þá er hún ennþá skondin og áhugaverð skoðun á stéttaskiptingu og frelsisbaráttu. Í myndinni leitar hin óslípaða "verkastéttar"-kvendi Rita til bókmenntafræðiprófessors í von um að bæta líf sitt og "syngja betra lag". Hún dáist að fólki sem er siðmenntað og fágað, les heimsbókmenntir og talar "gáfulega". Prófessorinn Frank er lykillinn inn í þennan "betri" heim en Frank er hins vegar að glíma við fjölmörg vandamál sjálfur, svo sem áfengisvandamál og framhjáhald kærustu sinnar. 

Þetta er ljómandi skemmtileg kvikmynd og er sérstaklega eftirtektarverð frammistaða Julie Walters sem hin hirspurlausa Rita. Þetta er saga um árekstur ólíkra persóna en líka um hvernig ímyndunin um stéttarskiptingu getur hlekkjað drauma. Myndin er dæmi um að hægt er að slíta af sér hlekki með miklu hugrekki en svo er þetta líka bara einföld og hjartnæm frásögn af vináttu fólks.

Já, stéttarskipting er ímyndun. Við erum öll í manneskjustéttinni.

Saturday, August 17, 2013

Ristilspeglunar-gagnrýni

Ég skellti mér í ristilspeglun í Mjóddinni á dögunum. Ég hef mig alltaf vel til áður en ég fer í ristilspeglanir og mæti vel til fara. Oftar en ekki spreyja ég smá ilmvatni inn í endaþarminn til að hafa þetta sem ánægjulegast fyrir læknirinn. Það er ákveðin spenna og örlítill kvíði sem myndast og ég ímynda mér að upplifunin sé svipuð og hjá samkynhneigðum manni sem undirbýr sig fyrir stefnumót. Það er spenna og smá kvíði og þú veist að líklega muntu fá eitthvað upp í rassinn seinna meir.

Speglunin var mjög fagmannlega framkvæmd og tók hún fljótt af. Þetta var allt fyrsta flokks. Þægilegur bekkur sem ég lá á þó að mónitórinn þar sem maður gat séð hvað var að gerast inni í ristli og endaþarmi hefði mátt vera stærri og í HD.

Ég mæli eindregið með að fólk skelli sér í ristilspeglun og njóti þess sem hún hefur upp á að bjóða. Maður hressist allur við!

Tuesday, August 13, 2013

Laugardalslaugin í ruglinu

Laugardalslaugin finnst mér ekki merkilegt batterí. Að venju var handklæðið mitt horfið þegar ég snéri aftur í baðklefann en þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég þarf að þurrka mér með hárþurrku eftir að hafa bleytt mig í þessari rótgrónu sundlaug í Laugardalnum. Svo er líka of mikið af fólki þarna og flestir með ljót húðflúr til sýnis sem mér finnst vera töluverð sjónmengun. Eina góða við laugina er sjópotturinn sem er með ferskt sjávarvatn dælt beint úr sjónum einhvers staðar á Reykjanesinu. Unaður það er að marinera sig í saltvatninu. Svo eru þeir komnir með nýjustu tæknina í sundlaugararmböndum sem er nú ekkert að gera hlutina eitthvað svaka einfalda. Nuddið sem þeir hafa upp á að bjóða er lélegt og gufan er ekkert spes. Þessi laug er kannski meira fyrir útlendinga. Ég fer framvegis í Salalaugina í Kópavogi til að bleyta mig upp.

Wednesday, August 7, 2013

Djöfulgangur í Taílandi

Það er ekki erfitt að sjá af hverju fólk annað hvort fílar eða hatar þessa nýjustu mynd Danans Nicolas Winding-Refn. Myndin fjallar um siðferðislega gjaldþrota fólk sem er flækt inn í dökka undirheima Bangkok borgar og þannig séð er engin persóna sem maður getur "haldið með" (þó að Ryan Gosling sé nú minnst andfélagslega persónan). Allir eru falir og engin hikar við að myrða fyrir rétta upphæð. Það er því dregin ansi dökk mynd af mannskepnunni og lítið um ljósglætu í myrkrinu.

Sagan er frekar einföld og fer allt púðrið í að skapa andrúmsloft og óþægilega stemningu þar sem ógn er alltaf yfirvofandi. Fólk sem fílar stíl Winding-Refn á eftir að verða hrifið en þeir sem voru að vonast eftir einhverju mikið meira eiga eftir að sitja uppi með sárt ennið. Þessi mynd er nefninlega hálfgert rúnk. En þetta er spennuþrungið, flott og óvægið rúnk. Svo er bara spurning hvort þú fílar rúnk eða ekki? 

Tuesday, August 6, 2013

Club 8

Þessa dagana hangi ég slakur og hlusta á plötuna Above the City með sænska bandinu Club 8 en þau hafa verið að gera popp-plötur síðan 1995. Þessi hljómsveit er þekkt fyrir bitursæta gítar-popp tónlist þar sem ljúf rödd Karolina Komstedt svífur lauflétt yfir vötnum. Það er hins vegar töluvert meira um tilraunastarfssemi á þessari plötu en áður hjá þeim og það gerir plötuna bara meira hressandi.



Thursday, August 1, 2013

Brottnuminn timburmaður

Um aldir alda hefur spurningin um hvort við erum ein í alheiminum herjað á þenkjandi menn um víða veröld. En einn maður er handviss um að við séum ekki ein á svifi um alheiminn. Hann heitir Travis Walton og hann var árið 1975 brottnuminn af geimverum. Þetta er eitt best skrásetta málið um brottnám og skrifaði Walton bók um sína reynslu og svo var bíómyndin Fire in the Sky gerð árið 1993 sem fjallar um atvikið. Sú mynd er vel áhorfanleg og get ég mælt með henni fyrir áhugasama þó að hún fylgi ekki samviskusamlega  lýsingum Walton um hvað kom fyrir hann um borð í geimskipinu.

Ég segi nú bara fyrir mitt leyti að ég yrði vel pirraður á að vera brottnuminn af einhverjum flipphausum frá annari plánetu.