Friday, August 31, 2012

The Killer Inside Me (2010)

Þessi mynd hefur lengi verið á dagskrá hjá mér enda með flottan titil og ágætis leikurum. Hún olli mér hins vegar miklum vonbrigðum. Andhetjan sem leikin er af Casey Affleck er algjört ómenni og ekki hægt að finna til með. Hann lúskraði þarna á Jessica Alba og Kate Hudson og fleirum af því að barnapían hans vildi að hann rassskellti hana í æsku. Þessi mynd er skraufþurr tuska.

Feist

Þeir sem þekkja mig hvað best vita að ég fell aðeins fyrir stelpum með dökkt (helst svart) hár. Annað er bara vitleysa. Til dæmis er ég löngu kolfallinn fyrir kanadísku söngkonunni Feist. Við erum búin að eiga í einstefnu ástarsambandi í nokkur ár síðan ég hlustaði á plötuna hennar Let it Die. Eftir það er hún búin að gera tvær plötur sem ég hef fílað í tusku, þó töluverðan meltingarsafa hafi þurft á nýjustu plötuna Metals en hún er loksins að fara að skila sér út um endaþarminnn eftir langt meltingarferli í tveimur heimsálfum. Feist er svo sannarlega í tuskuliðinu.

Hér eru þrjú góð lög með Feist.





Thursday, August 30, 2012

Blaut tuska

Er þetta ekki Kim Kardashian okkar Íslendinga? Hún þyrfti bara að láta leka eins og einu kynlífsmyndbandi og heimurinn er ostran hennar.

Vel sveitt tónleika auglýsing

Wednesday, August 29, 2012

Stórar ákvarðanir

Stundum þarf maður að taka stórar ákvarðanir. Ákvarðanir sem hafa mikil áhrif á líf manns, jafnvel breytir því algjörlega. Hugsuðurinn og taugavísindamaðurinn Sam Harris heldur því fram að frjáls vilji sé tálsýn. Í efnislegum heimi er ekkert plás fyrir einhvern "mig" sem tekur ákvarðanir. Allt er ákvarðað af erfðum og lífsreynslu og hægt er að sjá ákvörðunina mína í heilaskanna áður en ég verð meðvitaður um hvað ég ákveð að gera.

Árið 1997 stóð ég inni í Japis í Brautarholti og tók ákvörðun sem breytti lífi mínu til frambúðar. Ég hélt á tveim geisladiskum. Annar var Be Here Now með syngja-upp-í-míkrófóninn bræðrunum í Oasis en hinn var OK Computer með við-förum-ótroðnar-slóðir bandinu Radiohead.

Besta ákvörðun lífs míns.


Tuesday, August 28, 2012

The Shins

Þær eru nú orðnar fjórar plöturnar frá The Shins. Allar hafa þær endað á mjúku og fallegu lagi og hér er síðasta lagið af nýjustu plötunni sem er samnefnt plötunni og heitir Port of Morrow.



Replicate

Hér er smá fiðlu indí popp í boði Fanfarlo sem koma frá London. Þetta er af plötunni Rooms Filled with Light sem kom út á þessu ári og er búin að fá ágætis viðtökur. Ágætis tuska.


Monday, August 27, 2012

Elliðaárdalurinn er blaut tuska

Það er frábært að ganga eða skokka í Elliðaárdalnum. Þetta er algjör gersemi að hafa þetta svæði í borginni. Fallegir lækir, fossar, sveppir og kanínur skreyta dalinn og aragrúi stíga sem leiða mann hingað og þangað. Gaman líka að skokka og láta stígana bara leiða sig eitthvað. Ekki er verra að vera með góða tónlist í eyranu. Ég stilli spilarann minn yfirleitt á random og í gær komu þessi tvö snilldarlög í einu og peppuðu mig mikið upp er ég kláraði mína hálftíma hreyfingu.




Sunday, August 26, 2012

10 Hrollar

Þar sem ég var að tala um kvikmyndina Suspiria og er aðdáandi góðra hrollvekna þá ætla ég að punga út 10 hrollvekjum sem eru kannski ekki vel þekktar en samþykktar af Tuskunni.

Don´t Look Now (1973)
Þessi er vöðvaspennandi og dularfull með Donald Sutherland og Julie Christie.









A Tale of Two Sisters (2003)
Hrikalega spennandi og skerí kóresk draugamynd
 


The House of the Devil (2009)
Það var eitthvað krípí við þessa



Rec (2007)
Frábærlega hrollvekjandi spænsk "found footage" hrollvekja.
 


Shutter (2004) 
Fínasta misteríu draugamynd frá Tailandi.



Jacob´s Ladder (1990)
Eini sjensinn til að sjá Tim Robbins í hrollvekju. Þessi mynd er mikill sálfræðihernaður.
 


Martyrs (2008)
Á stundum óbærileg á að horfa enda mjög þung og erfið en rosalega vel gerð og leikin. Maður þarf gott nudd og hugleiðslu eftir að hafa horft á þessa

Night of the Living Dead (1968)
Þetta var sá tími þegar Sombíar löbbuðu hægt og eymdu meira (og voru í svart-hvítu).




















The woman (2011)
Feminista áróður í formi hryllingsmyndar?
 


In the Mouth of Madness (1994)
Þessi mynd hræddi mig mikið þegar ég sá hana í bíó þrettán ára. Ekki veit ég hvernig hún hefur elst.

Hin nýja trú

Hin nýja trú er Eplið. In iGod we trust.

Saturday, August 25, 2012

Dario Argento

Þessi gaur er ítalskur leikstjóri sem verður heiðursgestur á Reykjavík International Film Festival sem verður haldin frá 27. September til 7. Október. Hans sérgrein eru hrollvekjur og hefur stíll hans haft mikil áhrif á nútíma hryllingsgerð. Mér finnst mjög gaman að horfa á hryllingsmyndir og hef ég horft á tvær frægustu myndir hans, Deep Red frá 1975 og Suspiria frá 1977. Ég því miður man ekkert eftir Deep Red en Suspiria er stórskemmtileg og eldist nokkuð vel. Þessar tvær eru verður-að-sjá fyrir hrollþyrsta.

Hér er fræg morðsena úr myndinni Suspiria. Það vekur athygli mína að blóð í svona gömlum hryllingsmyndum er mjög gervilegt, alltof ljóst, oft eins og málning eða rifsberjasulta.




Tian 天

Einn daginn langaði mig ofboðslega í ekta kínverska nautakjöts núðlusúpu og rölti á kínverska veitingastaðinn Tian á Grensásveginum. Þar talaði ég að sjálfsögðu kínversku við ungan strák sem afgreiddi mig. Sá virtist ekkert kippa sér upp við að ég talaði kínversku og stökk ekki bros á vör. Ég hélt því uppi samræðunum sem voru stuttar. Komst allavega að því að hann og fjölskylda hans sem eiga staðinn eru frá Hangzhou, höfuðborginni í Zhejiang héraði, sem ég hef nokkrum sinnum farið til. Bragðið af súpunni var mjög gott og drakk ég hana upp til agna. Núðlurnar sjálfar voru hins vegar ekki af háum standard og nautakjötið var fullt af sinum og erfitt að tyggja. Ég var þó bara nokkuð sáttur því ég fékk þetta góða bragð af nautakjötsnúðlum sem ég hef saknað. Þau mættu hins vegar vera vinalegri þarna. Ég var einn þarna að borða, talandi kínversku og það hafði engin áhuga á að tala við mig. Mér fannst ég bara ekki velkominn. Það er alveg sjens að ég fari þarna aftur, einfaldlega því þeir eru með marga rétti sem eru ekta kínverskir. Þeir þurfa aðeins að bleyta í tuskunni þarna á Tian.
Kínversk nautakjöts núðlusúpa

Friday, August 24, 2012

Tuskudagslagið

Það er tuskudagur í dag og býst ég við að allir séu komnir með sýna tusku á loft í léttri sveiflu. Ekki er vitlaust að sveifla tuskunni við þetta hressa og hlýja lag frá Walesverjunum í Manic Street Preachers.

I Think I´ve Found It gjöriði svo vel


Thursday, August 23, 2012

Coriolanus

Þetta er alveg tuskufín mynd hjá Ralph Fiennes en hann bæði leikstýrir og leikur aðalpersónuna snilldarlega. Myndin er byggð á leikriti eftir mann að nafni Shakespeare og tala persónurnar Shakespearísku. Það kemur ekkert að sök heldur gerir þessa kröftugu mynd bara ljóðrænari og flottari þó stundum sé fyndið að sjá nútíma hermenn með vélbyssur tala svona ljóðrænt. Þessi mynd hefur fengið litla dreyfingu líklega vegna þess að framleiðendurnir hafa ekki haft trú að þessi mynd hefði getað orðið vinsæl. Bæði út af því að hún er byggð á óþekktu leikriti eftir Shakespeare og að þetta er ekki hasarmynd með nöfnum sem trekkja. Það er því engin ástæða fyrir þá sem hafa gaman af vel gerðum myndum að láta þessa fara fram hjá sér. Til dæmis frekar en að eyða pening í hasarmynd með uppblásnum gamalmönnum (sem trekkja).

 
Þessi treiler er reyndar glataður og villandi

Wednesday, August 22, 2012

Ást er...

..að kyngja hárum

Blaut tuska



Ég hef verið að leggja við hlustir á nýju plötuna frá Rufus Wainwright. Hún heitir Out of the Game og er hann aftur kominn í mjúkt og þægilegt stuð en platan sem hann gaf út á undan var ansi þunglamaleg og píanósveitt og komst ég aldrei upp á lagið með hana. Hún fær tuskustumpilinn þessi.






 
Þetta lag finnst mér frábært

Skraufþurr tíska

Ég hlusta ekki á svona rugl. Karlar eiga að raka sig þarna, snyrta sig þarna. Konur eiga að raka sig þarna og snyrta sig þarna. Ef konan mín er kafloðin og líður vel með það þá sætti ég mig bara við að fá eitt og eitt hár í kjaftinn. Kyngi því bara og segi henni svo að ég elski hana. Háruga eða ekki háruga.

Monday, August 20, 2012

Madness

Nýja lagið frá Muse heitir Madness. Þetta er rafrænasta og poppaðasta lagið sem þeir hafa gert og þeir halda greinilega áfram að þróa hljóm sinn á væntanlegri plötu. Spurning hvernig Muse aðdáendur taka þessu og hvort að nýja platan verður öll á þessum nótum. Þetta er ágætis  rafballaða hjá þeim en líklega þarf maður að heyra það í samhengi á plötunni sem kemur út í September til að geta metið það að fullu.

Í laginu segir Bellamy að það sé ákveðið brjálæði að þróast í sér (ástin) og að hann sé loksins búinn að sjá ljósið og hvað þú (Kate Hudson) þarft. Brjálæði er nú bara fín skilgreining á ástinni. Gjöriði svo vel. Vot tuska frá Muse!


Ningsarinn

Fór á Nings. Þótt að þetta sé allt frekar bragðlaust hjá þeim var ég þokkalega sáttur við hrísgrjónanúðlurnar á 1390. kr. þó að bragðið hefði jú mátt vera meira. Eggjanúðlurnar líklega það versta sem þeir bjóða upp á, algjörlega getulausar núðlur þar. En þeir fá plús fyrir að vera heilsumeðvitaðir og þannig í takt við þjóðarmagann. En þetta er ansi langt frá því að geta kallast kínverskur matur. Það borðar enginn í Kína djúpsteiktar rækjur með rauðri sætri sósu. Hálfþurr tuska þetta.

Blaut tuska

Ég er ekki enn búinn að sjá The Dictator en þetta viðtal er æðislegt.


Lánin skraufþurr

Lánamenningin hérna á Íslandi er fáránleg. Það er eins og allir eigi rétt á öllu því dýrasta og besta með lánuðum peningum. Fólk hefur ekki heyrt orðið nægjusemi. Það var einu sinni sagt við mig að námslán eru eitthvað sem allir ættu að taka, jafnvel þó mig vantaði engan pening! Og nú eru fíklarnir gengnir á lagið. Þetta er skraufþurrt!


Sunday, August 19, 2012

Russell Crowe er maðurinn

Russell Crowe kemur mér fyrir sjónir sem ofvirkur, lífsglaður, húmoristi með vott af introversion. Ég held að hann sé ekki mikið fyrir athygli heldur hefur hann bara ástríðu fyrir hlutum sem fylgja athygli.
Ég sá þennan Nýsjálending líklega fyrst í áströlsku myndinni Romper Stomper frá 1992. Hann stal svo senunni í hinni eftirminnilegu L.A. Confidential árið 1997. Eftir það er hann búinn að vera í hverri stórmyndinni á fætur annari og fékk tilnefningar til óskarsverðlauna þrjú ár í röð. Mín uppáhalds Russell Crowe mynd er The Insider þar sem hann leikur mann sem uppljóstrar um óhreint mjöl hjá tóbaksfyrirtæki sem hann starfaði hjá. Þessi mynd er ekki bara frábærlega vel gerð heldur byggð á sönnum atburðum sem eru virkilega merkilegir, bæði út frá sálfræðilegu sjónarhorni og samfélagslegu. A Beautiful Mind er líka mjög fín (einnig byggð á sönnum atburðum) og svo að sjálfsögðu Gladiator að ógleymdri áðurnefndri L.A. Confidential.

Svo verður virkilega forvitnilegt að sjá afraksturinn af Noah þar sem Crowe er í leikstjórn Darren Aronofsky sem gerði Black Swan, Requiem for a dream og The Wrestler

Russell Crowe með sínum betri helming

Gaman.

Hljómsveitin Fun. er orðin heimsfræg og farin að hljóma á Bylgjunni. Þetta byrjaði með laginu We Are Young þar sem þeir fengu Janelle Monae með sér. Lagið hljómaði í Chevrolet auglýsingu í hálfleik Super Bowl og eftir það var ekki aftur snúið og hafa flestir heyrt þetta lag í dag sem og lagið Some Nights. Lögin koma af plötunni Some Nights sem kom út á þessu ári. Þetta er ekki besta plata Fun. Það er platan Aim and Ignite frá 2009. Söngvarinn í Fun., Nate Ruess var áður í hljómsveitinni The Format sem er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum og er platan Dog Problems algjör snilld. Ég er ánægður með að Nate Ruess sé nú orðinn últra frægur enda mikill sjarmör og með frábæra rödd sem passar jafnvel í upplyftandi popplög sem og ljúfsárari lög. Það verður gaman að sjá hvernig þeir höndla frægðina og hvort þeir ætli að gerast enn meira meinstrím eða komi okkur á óvart með næstu plötu.

Nate Ruess er heillandi maður
 
 

Fuck, let´s figure it out

Hárprúðu Armenarnir í System of a Down eru í pásu frá plötugerð en aðdáendur geta þeytt flösu við nýja plötu forsprakkans Serj Tankian, Harakiri

Serj Tankian giftist kærustunni í Júní, 2012



Saturday, August 18, 2012

Myndskreyttur Homo Sapiens

Ég nenni ekki að horfa á fleiri ógeðsleg tattú. Þetta er löngu hætt að vera fyndið.

Friday, August 17, 2012

Tuskudagslagið

Það er tuskudagur í dag og hér er ein rennvot frá Razorlight. Þeir eru nú ekki þekktir fyrir nein þrekvirki en þeir eiga það til að koma manni í góða stemningu.


Thursday, August 16, 2012

Take Shelter

Hvað er raunverulegt og hvað er bara í hausnum á þér? Ég veit það ekki en þessi kvikmynd fær hér tuskublaut meðmæli.


Wednesday, August 15, 2012

Tegan and Sara

Það eru ekki margar hljómsveitir sem samanstanda af samkynhneigðum eineggja tvíburum. En þessar systur frá Kanada mynda eina slíka. Mér finnst rosa gaman að hlusta á þær og þetta lag kom nú bara handahófskennt á iPodinn minn í dag. Ég get mælt með öllum plötunum þeirra, sérstaklega er Sainthood frá 2009 þétt. Tegan and Sara eru blautar tuskur.




Lífið er gott

Nas er nú orðinn miðaldra maður og hefur sagt skilið við Kelis. Hann vill samt meina að lífið sé gott enda ennþá nóg af hipp og hoppi í honum. Hún er rök tuskan hans Nas. Þetta lag er vel svalt.


Tuesday, August 14, 2012

Ted

Allir brandararnir í þessari næstum því tveggja tíma kvikmynd kæmust í tuttugu mínútna Family Guy þátt. Það vantaði meiri fyndni og minni farða í fésið á Milu Kunis.


Ást er...

..að segja að hún sé falleg þegar hún er ógeðslega ljót.

500 dagar af sumri

Tónlistin úr þessari kvikmynd er frábær og ef þú ert ekki búinn að slengja þessum lögum inn á iPodinn þá ertu í vondum málum.



Monday, August 13, 2012

Fávitarnir

Mér finnst alltaf gaman að horfa á Lars Von Trier myndir (nema Dogville). Maður getur alltaf bókað að geta ekki setið og horft án þess að nota vitsmunina aðeins til að átta sig á hvað er þar að sjá. Hann skorar mann alltaf á hólm og það er aðdáunarvert. The Idiots er eldgömul mynd sem ég sá í fyrsta sinn. Það er skemmtileg mynd og góð úttekt á danska getnaðarlimnum sem virðist í góðu standi.

Mínar uppáhalds Lars Von Trier myndir eru:

1. Antichrist
2. Breaking the Waves
3. The Idiots

Þetta er náttúrulega skelfilega ófullkominn listi en svona er þetta bara. Ég á meira að segja eftir að horfa á Dancer in the Dark og The Boss of it All.

Ég veit það ekki

Það er flott fólk sem segir "Ég veit það ekki". Þeir eru mjög down-to-earth. Lærum af þeim. Það eru í raun þeir einu með viti. Þetta sagði Sókrates og þetta sögðu 200.000 Naglbítar. Ég kunni alltaf vel að meta Naglbítana.

Það er ekki mikið með Naglbítunum á netinu en þetta fann ég.