Friday, September 27, 2013

Vampire Weekend

Menn eru að tala um að það sé vampíru helgi framundan. Hvern ætlar þú að bíta í hálsinn um helgina? Flott lag af Modern Vampires of the City.

This is the End

Eftir um klukkutíma áhorf á This is the End hugsaði ég af hverju ég var að horfa á þessa hugmyndasnauðu og ófyndnu kvikmynd. Og það voru endalokin.

Love is Sabotage

Brett Anderson er hér að koma því á framfæri að ást sé skemmdarverk. En burtséð frá skemmdarverkum í nafni ástarinnar þá er þetta bara hressilegt lag af Bloodsports sem er ansi írennileg plata.

Thursday, September 26, 2013

Drew

Goldfrapp er band sem gerir ekki vont. Ég hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum með plötu frá þeim. Þetta lag er hrífandi af Tales of Us sem kom út fyrir stuttu.

Vakní skólann klukkan 7

Vaknaði sjö. Sturta. Skóflaði í mig hafragraut. Vippaði mér í síðbuxur og síðerma skyrtu sem ég hef ekki gert í langan tíma. Þýðir víst ekki að vera tuskulegur að kenna háskólanemum. Kominn út 7:30. Var búinn að mæla mér mót við annan kennara sem ætlaði að sýna mér kennslustofuna sem ég átti að kenna í. Labbaði hratt yfir veginn þar sem allir kínversku verkamennirnir eru að vinna í neðanjarðarlestakerfinu. Gekk í 16 mínútur. Hringdi í gæjann. Hann sagði mér að ég væri í vitlausri byggingu en ætlaði að senda nemanda til að ná í mig. Beið fyrir utan hálfbjánalegur og nemendurnir streymdu hjá, margir að spá í hvað þessi rauðhærði væri nú risavaxinn. Nemandinn kom. Sagðist heita Ross. Mér datt strax í hug að hann væri Friends áhugamaður. Það var ekki rétt. Hann sagðist heita eftir NBA leikmanni. Aldrei heyrt um hann. Fórum upp á fjórðu hæð alveg út í enda. Þar biðu um 30 nýnemar eftir að sjá nýja enskukennarann. Og þau sáu mig. Og eitthvað.


Annars eru þessir nemendur sem ég er að kenna alveg yndislegir, brosmildir og kurteisir. Það er hálf skrítið að mér sé borgað fyrir að kenna þeim. Mér þætti alveg eins sanngjarnt að ég borgaði pening fyrir að spjalla og læra af þessum krökkum. En ég geri þá bara mitt besta til að láta þeim líða eins vel og þau láta mér líða.

Wednesday, September 25, 2013

Læknisviðtal dauðans


Queens

Nýja platan frá Queens of the Stone Age er að fara vel í mig.


Derek hinn góði

Ég hef þá lokið að horfa á þessa sex þætti sem í boði eru úr gamanþátta seríunni Derek. Ég  varð ekki fyrir vonbrigðum með þessa þætti þó að Gervais hafi nokkrum sinnum dansað á mörkum væmninar en einhvern veginn á hann inni fyrir því. Þumlar á lofti!

Smart

Kínverjar eru ekkert smá fljótir að tæknivæðast. Hér eru allir með snjallsíma á lofti, meiraaðsegja götusópararnir taka sér hvíld á hjólunum sínum og tjekka á símanum sínum. Ég er örugglega eini maðurinn hérna sem lætur sér nægja síma með tökkum. Ég held að snjallsími muni bara flækja líf mitt. En svo er ég örugglega sá eini sem er að dilla mér við nýju Nine Inch Nails plötuna.


The Not So Great Gatsby

Baz Luhrmann tekur á bókina frægu með pompi og prakt, hjartaknúsurum og trendí popp tónlist en eina sem hann áorkar er að nánast drepa mann úr leiðindum og í leiðinni að minna mann á að taka bókina aftur upp við tækifæri.

Sunday, September 15, 2013

Fýluferð til Elysium

Elysium er ein af vonbrigðum sumarsins en hún lofaði góðu eftir frábæra frumraun leikstjórans Neill Blomkamp. Eins og District 9 þá er grundvallarhugmyndin gagnrýni á þjóðfélagsaðstæður en þannig er það í mörgum löndum að ríkt fólk á frekara aðgengi að góðri læknisþjónustu heldur en þeir sem hanga neðar í þjóðfélagsstiganum.

En þrátt fyrir góða grunnhugmynd þá fer lítið fyrir snjöllum frásagnarmáta eða plott-keyrðri atburðarrás sem gerði District 9 að frábærri kvikmynd. Sagan er örþunn og persónurnar ekki sérstaklega áhugaverðar eða eftirminnilegar. Skot framhjá hjá Blomkamp að þessu sinni.

Friday, September 13, 2013

Konunglegt svall

Ljómandi fín dönsk óskarsbeita. Svona hálfgert Big Brother um hvað danska kóngafólkið var að bralla á 18. öldinni.

Derek

Ricky Gervais skrifar og leikstýrir þessari seríu sem gerist á litlu dvalarheimili fyrir aldraða. Mjög hressandi efni en Karl Pilkington stelur senunni auðveldlega sem viðgerðarmaðurinn Dougie.


Inní myrkrið

Það hefði ekki verið neitt hrikalega óviðeigandi ef Spock og Kirk hefðu á einhverjum tímapunkti dottið í innilegan koss.

Mér fannst þessi ljómandi fín og hafði ég meira gaman af henni heldur en fyrstu myndinni í þessari seríu J.J. Abrams. Hann er greinilega rétti maðurinn til að taka við geislasverðinu af George Lucas.

Gæði myndarinnar er svo ekki síst að þakka magnaðri frammistöðu breska leikarans Benedict Cumberbatch sem fer með hlutverk Kahn.

Monday, September 9, 2013

Ef þú hefur áhuga á samfélagslegum og heimsspekilegum umræðum þá er season 3 af The Ricky Gervais Show nú fáanlegt á Youtube.


Sunday, September 8, 2013

Oblivion

Mér fannst hún nú ekkert sérstök þessi. Tæknibrellur í góðu lagi en frammistöður eins steini runnar og íslenska landslagið og ekki var sagan neitt til að hrópa hoochie mama fyrir.

Ég: 1 Kakkalakki: 0

Ég pokaði kvikindið!

Lagið sem ég set á þegar ég er orðinn sveittur og erótískur í ræktinni


Annars er þessi plata Anxiety alveg tilvalin pump músík fyrir vel snyrta karlmenn.

Teyjustelpurnar

Þeir eru ekki með teyjusvæði í ræktinni hérna. Þeir eru með teyjustelpur. Það var þá.

Monday, September 2, 2013

Ferðin til Kína í myndum

Icelandair fær prik fyrir að bjóða upp á þætti af Louie sem grínistinn Louis CK skrifar og leikstýrir. Tíminn leið hratt með hráum, kolsvörtum húmornum.







Á leiðinni frá London til Shanghai komst ég í feitt en í flugvélinni var boðið upp á mynd sem ég hef beðið eftir að sjá með eftirvæntingu. Myndin heitir Mud og er leikstýrð af Jeff Nichols sem gerði hina mjög svo áhugaverðu Take Shelter árið 2011. Mud státar af frábærum frammistöðum og er virkilega grípandi kvikmynd. Hún fléttar saman ansi marga þætti og nær að vera bæði spennandi og áhrifarík. Matthew McConaughey (loksins búinn að læra hvernig á að skrifa nafnið hans!) sýnir líka að þegar hann er með gott efni til að vinna með er hann hörku leikari (sjá einnig Killer Joe).

Um þetta leyti var ég orðinn óþreyjufullur eftir níu tíma á flugi og sárvantaði eitthvað til að grípa athyglina. Þá skellti ég af stað The Bling Ring sem er nýjast afsprengi Sofia Coppola en hún fjallar hér um sanna sögu af unglingum í Kaliforníu sem um árið stálust inn á heimili fræga fólksins og stálu drasli og peningum frá þeim. Þetta fannst mér frekar tilgangslaus mynd en hún á að vera ádeila á efnishyggju og frægðardýrkun. Ég veit bara ekki hvort að það sé einhver ávinningur af því að gera bíómynd um fólk sem er búið að fá nóg af athygli fyrir það að stela og að vera hálfvitar. Ég setti því þumalinn niður á sama tíma og flugvélin kom niður.