Thursday, September 26, 2013

Vakní skólann klukkan 7

Vaknaði sjö. Sturta. Skóflaði í mig hafragraut. Vippaði mér í síðbuxur og síðerma skyrtu sem ég hef ekki gert í langan tíma. Þýðir víst ekki að vera tuskulegur að kenna háskólanemum. Kominn út 7:30. Var búinn að mæla mér mót við annan kennara sem ætlaði að sýna mér kennslustofuna sem ég átti að kenna í. Labbaði hratt yfir veginn þar sem allir kínversku verkamennirnir eru að vinna í neðanjarðarlestakerfinu. Gekk í 16 mínútur. Hringdi í gæjann. Hann sagði mér að ég væri í vitlausri byggingu en ætlaði að senda nemanda til að ná í mig. Beið fyrir utan hálfbjánalegur og nemendurnir streymdu hjá, margir að spá í hvað þessi rauðhærði væri nú risavaxinn. Nemandinn kom. Sagðist heita Ross. Mér datt strax í hug að hann væri Friends áhugamaður. Það var ekki rétt. Hann sagðist heita eftir NBA leikmanni. Aldrei heyrt um hann. Fórum upp á fjórðu hæð alveg út í enda. Þar biðu um 30 nýnemar eftir að sjá nýja enskukennarann. Og þau sáu mig. Og eitthvað.


Annars eru þessir nemendur sem ég er að kenna alveg yndislegir, brosmildir og kurteisir. Það er hálf skrítið að mér sé borgað fyrir að kenna þeim. Mér þætti alveg eins sanngjarnt að ég borgaði pening fyrir að spjalla og læra af þessum krökkum. En ég geri þá bara mitt besta til að láta þeim líða eins vel og þau láta mér líða.

No comments:

Post a Comment