Monday, September 2, 2013

Ferðin til Kína í myndum

Icelandair fær prik fyrir að bjóða upp á þætti af Louie sem grínistinn Louis CK skrifar og leikstýrir. Tíminn leið hratt með hráum, kolsvörtum húmornum.







Á leiðinni frá London til Shanghai komst ég í feitt en í flugvélinni var boðið upp á mynd sem ég hef beðið eftir að sjá með eftirvæntingu. Myndin heitir Mud og er leikstýrð af Jeff Nichols sem gerði hina mjög svo áhugaverðu Take Shelter árið 2011. Mud státar af frábærum frammistöðum og er virkilega grípandi kvikmynd. Hún fléttar saman ansi marga þætti og nær að vera bæði spennandi og áhrifarík. Matthew McConaughey (loksins búinn að læra hvernig á að skrifa nafnið hans!) sýnir líka að þegar hann er með gott efni til að vinna með er hann hörku leikari (sjá einnig Killer Joe).

Um þetta leyti var ég orðinn óþreyjufullur eftir níu tíma á flugi og sárvantaði eitthvað til að grípa athyglina. Þá skellti ég af stað The Bling Ring sem er nýjast afsprengi Sofia Coppola en hún fjallar hér um sanna sögu af unglingum í Kaliforníu sem um árið stálust inn á heimili fræga fólksins og stálu drasli og peningum frá þeim. Þetta fannst mér frekar tilgangslaus mynd en hún á að vera ádeila á efnishyggju og frægðardýrkun. Ég veit bara ekki hvort að það sé einhver ávinningur af því að gera bíómynd um fólk sem er búið að fá nóg af athygli fyrir það að stela og að vera hálfvitar. Ég setti því þumalinn niður á sama tíma og flugvélin kom niður.

No comments:

Post a Comment