Sunday, August 18, 2013

A better song to sing

Educating Rita er bresk kvikmynd frá 1983 með Michael Caine og Julie Walters. Þrátt fyrir að vera gömul og að frelsisbarátta kvenna sé lengra á veg komin en árið 1983 þá er hún ennþá skondin og áhugaverð skoðun á stéttaskiptingu og frelsisbaráttu. Í myndinni leitar hin óslípaða "verkastéttar"-kvendi Rita til bókmenntafræðiprófessors í von um að bæta líf sitt og "syngja betra lag". Hún dáist að fólki sem er siðmenntað og fágað, les heimsbókmenntir og talar "gáfulega". Prófessorinn Frank er lykillinn inn í þennan "betri" heim en Frank er hins vegar að glíma við fjölmörg vandamál sjálfur, svo sem áfengisvandamál og framhjáhald kærustu sinnar. 

Þetta er ljómandi skemmtileg kvikmynd og er sérstaklega eftirtektarverð frammistaða Julie Walters sem hin hirspurlausa Rita. Þetta er saga um árekstur ólíkra persóna en líka um hvernig ímyndunin um stéttarskiptingu getur hlekkjað drauma. Myndin er dæmi um að hægt er að slíta af sér hlekki með miklu hugrekki en svo er þetta líka bara einföld og hjartnæm frásögn af vináttu fólks.

Já, stéttarskipting er ímyndun. Við erum öll í manneskjustéttinni.

No comments:

Post a Comment