Monday, November 19, 2012

Shame (2011)

 Hann er ansi skömmustulegur hann Michael Fassbander í þessari mynd. Fassbanderinn leikur Brandon sem á erfitt með að mynda tengsl við fólk en lætur í staðinn eftir sér að sofa hjá vændiskonum og horfa á klám í frítíma sínum og í vinnunni. Þetta er frekar átakanleg mynd því kallinn er svo sorgmæddur og skammast sín en hann ræður bara ekki við sig. Sem karlmaður þá getur maður skilið hann. Það er erfitt að finna raunverulega ást og það þarfnast fórnunar og sjálfsskoðunar sem getur verið sársaukafullt. Kynlíf er hins vegar alltaf ánægjulegt og er fljót leið til að líða vel, þarfnast engrar fórnunar né sjálfsskoðunar. Brandon þráir að mynda tengsl við konu en hann hefur lágan þröskuld fyrir erfiðum tilfinningum og þolir ekki mikla nánd. Hann hrindir öllu fólki frá sér á endanum, meira að segja systur sinni sem grátbiður hann um að vera til staðar.

Flottasta atriðið og líka það áhrifamesta er þegar Brandon er að hafa samfarir við tvær vændiskonur og á sama tíma heyrum við systur hans tala inn á talhólfið hans: "We are not bad people. We just come from a bad place". Svo sjáum við andlitið á Brandon þegar hann er við það að fá það og það er einhvers konar blanda af depurð og örvæntingu frekar en ánægju. Það er eins og allt líf sé farið úr honum, hefur hvorki sæði né sál og eina sem stendur eftir er visnað líflaust andlitið hans.

Áhorfandanum er svo falið það hlutverk að ákveða hvort að Brandon hafi breyst í lokin eða ekki sem er flott trix sem fær fólk til að hugsa fyrir sjálft sig. Ég persónulega trúi því að hann hafi breyst.

Shame er deit mynd fyrir lengra komna.

Og að sjálfsögðu Blaut Tuska.

No comments:

Post a Comment