Sunday, October 27, 2013

Apple

Einn nemandinn minn (Apple) lenti nýlega í hræðilegu bílslysi þar sem vinkona hennar lést. Sjálf meiddist hún illa á fæti og þarf á nokkrum aðgerðum að halda auk þess að vera á spítala í 1-2 mánuði. Ég og nokkrir bekkkjarfélagar hennar fórum að heimsækja hana á dögunum. Það er hefð í Kína þegar maður heimsækir fólk á spítala að gefa ávexti þannig að ég keypti slatta af eplum handa henni. Sumir bekkjarfélagar komu með mjólk (sem þarf ekki að vera í kæli), og þau höfðu líka undirbúið allskonar föndur eins og hjörtu og höfðu skrifað skilaboð í litla stílabók frá öðrum nemendum í bekknum.

Hún var í herbergi með þremur öðrum, allt eldri karlmenn sýndist mér og ansi þröngt um manninn. Maðurinn við hliðina á henni sat uppi með fótinn upp í rúmi á meðan læknir gerði að sári hans en það vantaði á hann stóru tána. Apple var frekar feimin að sjá þegar við komum en líklega leið henni líka illa en það er ekki eins mikið um verkjalyfs notkun þarna hjá þeim. Hún grét aðeins en við reyndum að hressa hana við. Pabbi hennar lyfti teppinu af fætinum á henni til að sýna okkur ansi slæmt sár á kálfanum á hennni. Ég hef aldrei séð jafn slæm meiðsli áður og brá mér töluvert en lét þó ekkert á mér sjá. Ef skilningur minn var réttur þá á að taka hold af rassinum á henni og græða á legginn því það djúpt er sárið. Læknirinn er víst búin að segja henni að útlitið sé ekki gott um að hún muni ganga aftur á venjulegan hátt. Ég talaði við hana og reyndi að hressa hana við en vissi kannski ekki alveg stundum hvað ég ætti að segja. Ég spurði hana hvort henni þætti gaman að syngja. Hún sagði það ekki vera. Hinir nemendurnir stungu þá upp á að ég myndi syngja fyrir hana lag. Sem hljómaði nú ekki voða vel fyrir mér enda sjúkrastofan full af fólki, mamma hennar og pabbi þarna ásamt aðstandendum og sjúklingum. Hins vegar gat ég ekki ollið Apple vonbrigðum og auðvitað vildi ég reyna láta henni líða betur. Ég söng þá feimnislega hluta af einu kínversku lagi og svo You are not Alone en fékk nú aðstoð með textann úr snjallsíma. Apple þakkaði mér voða vel fyrir og kannski að tálausi maðurinn hafi notið líka en ég fékk nú ekki komment frá honum. Ég er svo búin að heimsækja Apple einu sinni aftur og hún er ótrúlega brött miðað við erfið meiðsli og dáist ég að viðhorfi hennar. Hún er heppin að vera á lífi og segist hún ætla að sigrast á þessu og nýta líf sitt vel. Rosalega aðdáunarverð stelpa.

No comments:

Post a Comment