Wednesday, May 7, 2014

Ekki smart

Ég hef ekki enn séð ástæðu til að fjárfesta í svokölluðum smartsíma en eign á slíku tæki virðist hálfpartinn orðið eins algengt og fæðingarvottorð. Ég skil ekki hvað á að vera svona frábært og nauðsynlegt við þessa græju. Sjálfur vill ég leitast við að hafa líf mitt sem einfaldast og ég er handviss að svona sími mun flækja líf mitt, ekki gera það betra. Ég veit hvað internetið bíður upp á rosalega margt og bara það að hafa tölvu á heimilinu veitir aðgang að ógrynni af efni sem keppist um athygli manns. Ég get því ekki skilið hvað á að vera gott við það að vera alltaf tengdur við internetið eða alltaf vera með "vini" inni í þessu tæki. Ég þarf nú bara smá tíma fyrir sjálfan mig.

Kína er gott dæmi um land þar sem smart símar hafa tröllriðið öllu og það eru "allir" með smartsíma. Tískufyrirbrigði grassera einstaklega vel í þessari menningu þar sem samkeppni, og að vera "í hópnum" er sterk hvatning til hegðunar. Fólk einfaldlega vill ekki vera útundan. Og þetta er allt saman rosalega hagkvæmt fyrir fyrirtækin sem koma reglulega upp með nýja og betri tækni og sannfærir fólk um að þetta þurfi allir að eiga. Fólk hérna er yfirleitt frekar hissa á að sjá mig draga upp gamlan (og góðan) Nokia síma.

Ég er ekki sannfærður um að ég þurfi þetta tæki en ég er sannfærður að þetta tæki geri það að verkum að fólk er minna staðsett í tilteknu augnabliki og á færri raunveruleg samskipti við fólkið í kringum það. Ég vil frekar vera til í þessu augnabliki heldur en vera til á Wechat.

No comments:

Post a Comment