Friday, July 26, 2013

Bumbukóngar Evrópu og Kínverjar

Í ljósi þess að við Íslendingar erum nú bumbukóngar Evrópu langar mig til gamans að bera okkur saman við öllu fitusnauðari Kínverja. Gen hafa auðvitað eitthvað að segja um mismunandi líkamsstærðir en venjur er líklega stærsti orsakaþátturinn.

Fyrst eitt orð: Síðdegiskaffi.

Kínverjar fá sér ekki síðdegiskaffi en við Íslendingar úðum í okkur sætar kökur og brauð um miðjan dag. Ég er svo sannarlega engin undantekning á því þó það hafi minnkað eftir að ég flutti til Kína.

Málið er nefninlega að í Kína er  hádegismaturinn  mun mikilvægari máltíð heldur en kvöldmatur. Þeir fá sér heita máltíð í hádeginu og borða vel þannig að þeir verði ekki svangir um daginn. Ef þeir borða á milli mála er algengt að fá sér ávexti þó að lítil kex (ekki súkkulaðikex) séu líka vinsæl sem viðbiti.

Orð númer tvö: Hreyfing.

Það hafa ekki allir efni á að kaupa sér bíl í Kína og almenningssamgöngur eru nokkuð góðar. Það þýðir að fólk labbar meira. Sjálfur nota ég alltaf strætó í Kína og þarf stundum að ganga ágætis vegalengdir til að ná áfangastað eða til að ganga heim.

Og svo annað: Matur

Kjöt er frekar meðlæti heldur en aðalrétturinn í máltíð og fólk borðar yfirleitt meira grænmeti en kjöt. Hrísgrjón eða núðlur eru yfirleitt undirstaða máltíðarinnar og grænmeti og kjöt er borðað með því. Matur er líka borðaður í mun minni skömmtum og fólk deilir matnum saman sem kemur pottþétt í veg fyrir að fólk borði of mikið.

Að lokum: Eftirréttur

Í Kína tíðkast ekki að borða sæta og fitumikla eftirrétti. Þeir borða yfirleitt ekkert eftir matinn.

Ofþyngd á samt eftir að verða vandamál í framtíðinni í Kína með meiri þróun   og  stærri millistétt. Ég held samt að þessar venjur sem þeir hafa muni leiða til að vandamálið verður ekki eins stórt og á vesturlöndum.

 

No comments:

Post a Comment