Monday, July 1, 2013

Lúxus vandamál



Allt frá því ég sá Christopher Reeve túlka Clark Kent / Superman í Superman: The Movie og Superman 2 hef ég verið mikill aðdáandi persónunnar á hvíta tjaldinu. Ég horfi reglulega á þessar myndir (minna á Superman 3 sem reyndar á móment og enn minna á Superman 4) og alltaf grípur mig nostalgía og aðdáun á frábærum kvikmyndum og frábærri hetju (ekki skemmir frábær tónlist John Williams).

Eins og margir ungir aðdáendur þá fékk ég Súperman búning sem drengur og ég var nokkuð viss um að þegar ég væri kominn í gallann gæti ég flogið (og rauða hárið breytast í svart hár með krulluðum lokk hangandi yfir enninu).        

Í síðustu viku gafst mér loksins tækifæri að sjá Man of Steel en ég er búinn að bíða gríðarlega spenntur allt frá því tilkynnt var að fara ætti í framleiðslu á myndinni í leikstjórn Zack Snyder (The Watchmen; 300). Ekki minnkaði spennan þegar tilkynnt var að Christopher Nolan ætti að vera með framlag til sögunnar en Nolan endurræsti Batman á tilkomumikinn hátt. Ég var sem sagt handviss um að þessi ástkæra söguhetja væri í réttum höndum.

Ég keypti miða í dýrari kantinum svo ég gæti séð herlegheitin í IMAX 3-D. Ég var ekkert lítið spenntur þegar allt fór í gang með klunnalegu þrívíddargleraugun á nefinu. Allt frá fyrstu mínutunum fékk ég hins vegar sökkvandi tilfinningu og skynjaði að hér var ekki allt með felldu. Myndin fannst mér fjarlæg og köld og náði ég ekki að mynda tengsl við hvorki persónur né þennan skapaða heim sem birtist á skjánum. Þrátt fyrir að Superman sé ein mín uppáhalds persóna þá var mér bara eiginlega drullu sama um hann í þessari mynd.

Það er alveg á hreinu að gömlu myndirnar (1 og 2) eru á allan hátt (nema kannski tæknilega) betri myndir. Þær hafa kemistríu, sjarma, húmor, og eru með mikið meira tilfinningalegt aðdráttarafl. Þrátt fyrir að Zack Snyder og félagar hafi yfir að ráða öflugri tækni til að búa til hasar senur þá virðast þeim vanta  öll tól til að búa til trúverðugan heim, persónur og atburðarrás. Ég bjóst við The Dark Knight en ég fékk Fantastic Four.

Þetta er mitt lúxus vandamál í dag.

No comments:

Post a Comment